LeBron ræddi við Kobe rétt fyrir þyrluferðina

LeBron James í leik Lakers á Austurströndinni í síðustu viku …
LeBron James í leik Lakers á Austurströndinni í síðustu viku en liðið lagði af stað heim til Los Angeles á sunnudagsmorgun, um svipað leyti og Kobe Bryant fór í þyrluferðina örlagaríku. AFP

LeBron James, leikmaður Los Angeles Lakers, og Kobe Bryant ræddu saman í síma rétt áður en Bryant fór í þyrluferðina örlagaríku á sunnudaginn en þeir tveir eru í hópi allra bestu körfuboltamanna sögunnar og voru miklir keppinautar en jafnframt góðir vinir.

Kvöldið áður fór James fram úr Bryant á stigalista NBA-deildarinnar og þá sendi Bryant honum kveðju á Twitter, sem reyndist það síðasta sem hann skrifaði á þann samskiptamiðil: „Haldu áfram að lyfta körfuboltanum, James kóngur. Með mikilli virðingu til bróður míns."

Þeir voru aldrei samherjar í NBA-deildinni en James kom til liðs við Lakers 2018, tveimur árum eftir að Bryant lagði skóna á hilluna.

„Hér sit ég og reyni að skrifa eitthvað en fer alltaf að gráta aftur, bara við að hugsa um þig, Gigi og vináttuna, tengslin og bræðralagið sem var á milli okkar. Ég heyrði bókstaflega í þér á sunnudagsmorguninn þegar ég var að fara af stað frá Philadelphia til Los Angeles. Hafði ekki minnsta grun um að það væri okkar síðasta samtal," skrifaði James á samskiptamiðla og bætti við:

„Ég er algjörlega niðurbrotinn, bróðir. Ég lofa þér að halda merki þínu á lofti. Þú skiptir okkur öll svo miklu máli. Gefðu mér styrk að ofan og gættu mín. Það er svo margt annað sem mig langar að segja en ég hreinlega get það ekki. Sjáumst síðar, bróðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert