Englaborgin grætur

Myndir af Kobe Bryant eru víða um Los Angeles-borg þessa …
Myndir af Kobe Bryant eru víða um Los Angeles-borg þessa dagana. AFP

Það lá þykk þoka yfir landsvæðinu hér austur af miðborg Los Angeles þegar ég vaknaði á sunnudagsmorgun. Hún var ekki í veðurspánni, en ég var ekki hissa þar sem ég hafði ekið inn í borgina kvöldið áður að norðan og fundið fyrir rakanum í loftinu. Venjulega þurrkar sólin þennan þokubakka um miðjan morgun, en ekki þennan morgun.

Þetta var hljóðlátur morgunn. Það voru engar lögregluþyrlur á lofti að venju.

Nokkru seinna heyrði ég þuli tala um Kobe Bryant í útvarpinu þegar ég var á leið í matarinnkaup. „Hvað eru þeir að tala um Kobe þegar spurningaþátturinn á að vera í loftinu?“ hugsaði ég. Smám saman gerði ég mér ljóst að hann væri látinn.

Kobe? Látinn? Þetta var óskiljanlegt fyrir hugann í upphafi. Það skipti hins vegar litlu máli – staðreyndirnar eru óháðar slíkum tilfinningum.

Maður veit svo sem vel að banaslys gerast daglega og sjaldnast eru þau fréttnæm á landsvísu nema að þekkt fólk farist. Í þessu tilfelli létust níu manns – þar á meðal þrettán ára dóttir hans, Gianna. Fyrir flesta snerist slysið hins vegar fyrst og fremst um Kobe.

Stórstirnið í borg stjarnanna

Los Angeles er þekkt fyrir ýmislegt, þar á meðal sem miðstöð skemmtanaiðnaðarins hér vestra. Það er verðlaunaárstíminn hér í bæ. Þau koma helgi eftir helgi: Golden Globe, SAG, Grammy, Emmy, Óskarinn, o.s.frv. Los Angeles er hins vegar fyrst og fremst Lakers-borg þegar kemur til skemmtunar. Lakers er enn langvinsælasta íþróttaliðið í borginni og fyrir aðdáendur liðsins var Kobe Bryant goðsögn. Hann vann fimm meistaratitla og var lykilmaðurinn í þeim öllum. Hann lék tvo áratugi með liðinu og var stigahæsti leikmaður Lakers fyrr og síðar.

Mr. Lakers.

Þegar hann var inni á vellinum var ávallt möguleiki að Lakers gæti unnið.

Lakers skipar sérstakan sess hér í bæ og Kobe var sá Lakers-maður sem var hetja aðdáenda liðsins í borginni. Hann var sá leikmaður sem gat sameinað fólk þegar í harðbakkann sló hér í bæ.

Ég hef áður á þessum síðum skýrt frá minni eigin reynslu að upplifa þetta Kobe Bryant-tímabil í sögu Lakers eftir að liðið flutti inn í Staples Center 1999 þar til Bryant tilkynnti um lokin á ferlinum fyrir um fimm árum. Vegna þeirrar reynslu að hafa séð hann leika í Staples Center vel yfir 200 sinnum kom fréttin eins og kjaftshögg.

Ég var ekki einn um það hér í borg.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert