Fjörutíu sigrar Lakers - LeBron upp fyrir Jordan

Rajon Rondo átti sinn besta leik með Lakers í vetur …
Rajon Rondo átti sinn besta leik með Lakers í vetur þegar liðið lagði Phoenix í nótt. AFP

Los Angeles Lakers varð í nótt annað liðið á þessu tímabili, á eftir Milwaukee Bucks, til að vinna 40 leiki í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Lakers tók á móti Phoenix Suns í Staples Center og vann allsannfærandi sigur, 125:100. Anthony Davis skoraði 25 stig og tók 10 fráköst fyrir Lakers, Rajon Rondo skoraði 23 stig, hans besta á tímabilinu, og LeBron James var með 17 stig, 9 stoðsendingar og 8 fráköst. Lakers hefur leikið 52 af 82 deildaleikjum vetrarins. James fór upp fyrir Michael Jordan á listanum yfir þá sem skora mest af vítalínunni og er núna fimmti frá upphafi í þeirri tölfræði.

Milwaukee Bucks hélt áfram sinni sigurgöngu og vann Sacramento Kings með góðum endaspretti, 123:111. Milwaukee hefur unnið 46 leiki af 53 og þetta var 25. heimasigurinn. Eric Bledsoe og Khris Middleton skoruðu 28 stig hvor fyrir toppliðið.

Pascal Siakam skoraði 34 stig fyrir meistarana í Toronto Raptors sem héldu áfram að bæta félagsmetið og unnu sinn fimmtánda leik í röð, 137:126 gegn Minnesota Timberwolves, sem er alveg heillum horfið þessar vikurnar en var þó stigi yfir í hálfleik.

Úrslitin í nótt:

Detroit - Charlotte 76:87
Indiana - Brooklyn 105:106
Orlando - Atlanta 135:126
Toronto - Minnesota 137:126
Milwaukee - Sacramento 123:111
Dallas - Utah 119:123
Denver - San Antonio 127:120
Golden State - Miami 101:113
LA Lakers - Phoenix 125:100

mbl.is