Ótrúleg endurkoma Hamars í Smáranum

Everage Lee Richardson, leikmaður Hamars, var með þrefalda tvennu í …
Everage Lee Richardson, leikmaður Hamars, var með þrefalda tvennu í kvöld, 17 stig, tólf fráköst og tíu stoðsendingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hamar er með tveggja stiga forskot á Breiðablik á toppi 1. deildar karla í körfuknattleik eftir leik liðanna í Smáranum í Kópavogi í átjándu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 93:87-sigri Hamars en Blikar leiddu allan leikinn, allt þangað til undir lok fjórða leikhluta.

Breiðablik byrjaði leikinn betur og var staðan 51:47, Breiðabliki í vil, í hálfleik. Blikar juku forskot sitt um þrjú stig í þriðja leikhluta og var staðan 85:83, Blikum í vil, þegar þrjár og hálf mínúta var til leiksloka.

Þá áttu Hvergerðingar ótrúlegan leikkafla með Matej Buovac og Michael Philips fremsta í flokki og Hamar innbyrti gríðarlega mikilvægan sigur. Philips var stigahæstur Hamarsmanna með 24 stig og átta fráköst. Buovac skoraði 13 stig.

Larry Thomas var langstigahæstur Blika með 34 stig og tíu fráköst. Hamar er með 32 stig í efsta sæti deildarinnar, líkt og Höttur, en Breiðablik er í þriðja sætinu með 30 stig eftir átján spilaða leiki. Sigurliðið í deildinni fer beint upp í úrvalsdeildina en næstu fjögur fara í umspil um eitt sæti.

Öruggt hjá Hetti

Þá styrkti Höttur stöðu sína á toppi deildarinnar með öruggum sigri gegn Álftanesi á Álftanesi í kvöld en leiknum lauk með 88:65-sigri Hattar. Höttur leiddi með 25 stigum í hálfleik og gat því leyft sér að slaka á í síðari hálfleik.

David Guardia var stigahæstur Hattarmanna með 25 stig en Höttur er með 32 stig í efsta sæti deildarinnar líkt og Hamar. Dúi Þór Jónsson skoraði 16 stig fyrir Álftanes sem er í fjórða sæti deildarinnar með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert