Tíu stoðsendingar í framlengdum leik

Martin Hermannsson hefur verið lykilmaður í liði Alba Berlín á …
Martin Hermannsson hefur verið lykilmaður í liði Alba Berlín á tímabilinu. Ljósmynd/EuroLeague

Martin Hermannsson átti góðan leik fyrir Alba Berlín þegar liðið heimsótti Ulm í efstu deild Þýskalands í körfuknattleik í kvöld. Leiknum lauk með sex stiga sigri Alba Berlín, 112:106, en Martin skoraði 8 stig, tók eitt frákast og gaf tíu stoðsendingar á þeim rúma hálftíma sem hann lék í leiknum.

Alba Berlín byrjaði leikinn betur og leiddi með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta. Ulm vann sig inn í leikinn í öðrum leikhluta og Ulm leiddi með einu stigi í hálfleik, 54:53. Mikið jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik og var staðan jöfn að loknum fjórða leikhluta, 96:96. Alba Berlín var hins vegar sterkari í framlengingunni og fagnaði sex stiga sigri í leikslok.

Alba Berlín er í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig eftir sigur kvöldsins, átta stigum minna en topplið Bayern, en Alba Berlín á leik til góða á toppliðið. Martin hefur verið algjör lykilmaður í liði Alba Berlín á tímabilinu en hann hefur skorað 13 stig, tekið tvö fráköst og gefið sex stoðsendingar að meðaltali í leik í deildinni í vetur.

mbl.is