Bikarmeistarar aftur í úrslit

Hlynur Bæringsson fyrirliði Stjörnunnar sækir að körfu Tindastóls í Höllinni …
Hlynur Bæringsson fyrirliði Stjörnunnar sækir að körfu Tindastóls í Höllinni í kvöld en Jaka Brodnik er til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

Bikarmeistararnir í Stjörnunni eru komnir í úrslit annað árið í röð eftir stórsigur á Tindastóli 98:70 í undanúrslitum Geysisbikars karla í körfuknattleik í Laugardalshöll í kvöld. 

Stjarnan mætir Grindavík í úrslitaleik í Laugardalshöll á laugardaginn klukkan 13:30 en Grindvíkingar lögðu Fjölnismenn að velli í fyrri undanúrslitaleiknum í kvöld.

Eftir jafnan fyrri hálfleik benti fátt til þess að stórsigur yrði niðurstaðan í kvöld. Bæði liðin eru vel mönnuð og leikurinn var í járnum fram að hlé. Stjarnan var þá yfir 45:43. 

Allt annað var uppi á teningnum í síðari hálfleik því þá stakk Stjarnan einfaldlega af. Garðbæingar náðu fljótlega ellefu stiga forskoti og Skagfirðingum tókst aldrei að vinna sig inn í leikinn eftir það. 

Smám saman jókst munurinn og bikarmeistararnir gengu einfaldlega á lagið. Leikmenn Tindastóls koðnuðu niður en ekki var sama ákefðin í vörn þeirra og vörn Stjörnunnar í síðari hálfleik. Þegar Garðbæingar náðu boltanum keyrðu þeir fram völlinn í hvert skipti sem færi gafst og leikmenn Tindastóls voru lengi að skila sér til baka. 

Nikolas Tomsick sýndi að hann er hálfgerð stigavél á góðum degi. Var kominn með 25 stig um miðjan þriðja leikhluta og lét 27 duga þegar uppi var staðið. Vinsældir hans á landinu eru líklega ekki allra mestar á Sauðárkróki en Tomsick fór mikinn í liði Þórs frá Þorlákshöfn sem sló Tindastóls út í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í fyrra. 

Kyle Johnson skoraði 22 stig. Margir fleiri léku vel hjá Stjörnunni og Ægir Þór Steinarsson hætti aldrei að hamast. Hann hefur svo mikla orku að hann hefði líklega getað spilað báða undanúrslitaleikina á fullu. 

Hjá Tindastóli var Jaka Brodnik stigahæstur með 16 stig. Margir leikmanna Tindastóls virtust vera inni í leiknum í fyrri hálfleik og þeir skiptust á að setja stig á töfluna. En liðið virtist sprungið í síðari hálfleik, hverju sem um er að kenna. 

Gangur leiksins: 9:4, 11:10, 13:14, 14:18, 21:22, 27:33, 36:37, 43:45, 48:52, 50:61, 58:70, 60:73, 60:82, 65:87, 68:91, 70:98.

Tindastóll: Jaka Brodnik 16, Jasmin Perkovic 12/10 fráköst, Deremy Terrell Geiger 10/8 stoðsendingar, Sinisa Bilic 10, Pétur Rúnar Birgisson 7, Axel Kárason 6, Gerel Simmons 5, Helgi Rafn Viggósson 4.

Fráköst: 15 í vörn, 10 í sókn.

Stjarnan: Nikolas Tomsick 27, Kyle Johnson 22/5 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 13/11 fráköst/5 stoðsendingar, Tómas Þórður Hilmarsson 13/13 fráköst, Urald King 8/5 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 5/7 fráköst/15 stoðsendingar, Dúi Þór Jónsson 4, Arnþór Freyr Guðmundsson 3, Ágúst Angantýsson 2, Gunnar Ólafsson 1/4 fráköst.

Fráköst: 37 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 1734

Tindastóll 70:98 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert