„Erum betri þegar við höldum hraðanum uppi“

Nikolas Tomsick með boltann í kvöld en hann skoraði 27 …
Nikolas Tomsick með boltann í kvöld en hann skoraði 27 stig. Pétur Rúnar Birgisson reynir að verjast honum. mbl.is/Árni Sæberg

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði úrslitin í undanúrslitaleiknum gegn Tindastóli ekki sýna getumuninn á liðunum en Stjarnan vann stórsigur 98:70 og leikur til úrslita á laugardag gegn Grindavík. 

„Þeir klikkuðu á skotum og við náðum hraðaupphlaupum um tíma ásamt því að við settum niður mikilvægt skot. Auk þess unnum við boltann nokkrum sinnum og þá jókst meðbyrinn,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is í Laugardalshöllinni. 

„Við náðum áhlaupi og þeim tókst ekki að svara því. Það þarf enginn að segja mér að munurinn á þessum liðum séu tæplega 30 stig. Þetta eru bara jöfn lið og það sást í fyrri hálfleik að leikurinn hefði getað farið hvernig sem var. Við náðum hins vegar að sprengja upp í upphafi þriðja leikhluta og okkur tókst að halda dampi. Það var nauðsynlegt að hleypa þeim ekki inn í leikinn eftir það. Þeir eru það gott og vel þjálfað lið að við vorum skíthræddir við þá.“

Spurður um hvort það hafi skipt máli að keyra á Tindastólsliðið þegar færi gafst segir Arnar það henta Stjörnunni vel. 

„Þegar við gerum það þá erum við betri. Við spilum betur þegar við höldum hraðanum uppi. Okkur tókst að gera það í síðari hálfleik sem er mjög gott,“ sagði Arnar Guðjónsson. 

Arnar Guðjónsson.
Arnar Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is