Í banni í bikarúrslitaleiknum?

Seth Christian LeDay með boltann í leiknum gegn Stjörnunni.
Seth Christian LeDay með boltann í leiknum gegn Stjörnunni. mbl.is/Árni Sæberg

Háttsemi Seth Christian LeDay, leikmanns Grindavíkur, í leik gegn Stjörnunni á dögunum gæti reynst dýrt spaug. Aganefnd KKÍ úrskurðaði leikmanninn í eins leiks bann sem gæti orðið sjálfur bikarúrslitaleikurinn. 

Þannig er mál með vexti að Fjölnir og Grindavík mætast í dag í undanúrslitum Geysisbikarsins. Þar verður leikmaðurinn löglegur en bannið tekur gildi á morgun. Hann verður í banni í næsta leik eftir það sem verður þá annað hvort bikarúrslitaleikurinn á laugardaginn eða næsti deildarleikur. Allt eftir því hvernig fer hjá Fjölni og Grindavík í dag. 

Í reglum varðandi Aga- og úrskurðanefnd KKÍ kemur fram að nefndin skuli ávallt hittast á miðvikudögum og þegar kemur til leikbanna í úrskurðum hennar þá taka þau ávallt gildi á hádegi daginn eftir. 

Í rökstuðningi aganefndarinnar kemur fram að leikmaðurinn hafi slegið leikmann Stjörnunnar „þéttingsfast í höfuðið með flötum lófa,“ en nefndin studdist meðal annars við myndbandsupptöku. Brotið verðskuldar leikbann að mati nefndarinnar en leikmaðurinn fékk ekki brottvísun í leiknum. 

Grindvíkingar fengu tækifæri til að senda inn greinagerð vegna fyrirtöku málsins. Fari svo að Grindavík tapi gegn Fjölni í dag þá gildir leikbannið í næsta leik í deildinni eins og áður segir. Þá mætir Grindavík liði Vals hinn 1. mars. 

Úrskurður aganefndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert