Mikilvægast að hugsa um leikinn en ekki umhverfið

Falur Harðarson, þjálfari Fjölnis.
Falur Harðarson, þjálfari Fjölnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undanúrslit Geysisbikars karla í körfuknattleik eru að bresta á en Fjölnir og Grindavík mætast í karlaflokki í Laugardalshöllinni klukkan 17:30 og Tindastóll og Stjarnan eigast þar við klukkan 20:15. Á morgun verða konurnar á ferðinni og báðir bikarúrslitaleikirnir á laugardaginn venju samkvæmt. 

Mbl.is ræddi við Fal Harðarson á blaðamannafundi í vikunni. Falur þjálfar Fjölni og er í nokkuð sérstakri stöðu því liðið er þegar fallið úr efstu deild en getur enn orðið bikarmeistari. Falur þekkir keppnina vel sem farsæll leikmaður og þjálfari. Hann segir mesta máli skipta fyrir leikmenn að venjast hlutlausa umhverfinu sem allra fyrst þar sem þeir leika sjaldan í Laugardalshöll. 

„Mér finnst að menn þurfi fyrst og fremst að huga að því að þetta er völlur sem ekki allir fá að spila á. Menn þurfa að gleyma því sem fyrst og hugsa um leikinn sjálfan en ekki umhverfið. Laugardalshöll er svolítið spari. Því fyrr sem menn komast yfir það því betra fyrir þá sjálfa og liðið. Ég man eftir mínum fyrsta bikarúrslitaleik að þá hélt ég að ég færi í úrslitaleik og heim með bikarinn. Það varð hins vegar ekki raunin fyrstu tvö skiptin sem ég spilaði í bikarúrslitum [þá var fyrirkomulagið þannig að bikarkeppnin fór inn í Laugardalshöllina þegar kom að úrslitaleikjum en ekki undanúrslitaleikjum]. Halda þarf einbeitingu til að ná fram hagstæðum úrslitum,“ sagði Falur við mbl.is. 

mbl.is