Nýliðinn náði þrjátíu stigum í fyrsta sinn

Zion Williamson kemur sterkur inn í lið New Orleans Pelicans.
Zion Williamson kemur sterkur inn í lið New Orleans Pelicans. AFP

Einn áhugaverðasti nýliðinn í NBA-deildinni í körfuknattleik um árabil skoraði 31 stig í fyrsta skipti í nótt þegar New Orleans Pelicans vann sannfærandi sigur á Portland Trail Blazers, 138:117.

Zion Williamson, sem missti af fyrstu 43 leikjum New Orleans vegna meiðsla, var búinn að skora 20 stig eða meira í nokkrum leikjum í röð og í nótt kom hans besta frammistaða til þessa, 31 stig og 9 fráköst, og hann spilaði í 28 mínútur. Nú er spurningin hvort hann komi New Orleans í úrslitakeppnina en liðið er sem stendur í 11. sæti og fjórum sigurleikjum á eftir Memphis Grizzlies sem er í áttunda sætinu.

James Harden skoraði 42 stig fyrir Houston Rockets í stórleik næturinnar þegar lið hans lagði Boston Celtics á heimavelli, 116:105. Gordon Hayward skoraði 20 stig fyrir Boston.

Ben Simmons var með þrefalda tvennu annan leikinn í röð fyrir Philadelphia 76ers sem vann Los Angeles Clippers í hörkuleik, 110:103. Hann skoraði 26 stig, tók 12 fráköst og átti 10 stoðsendingar. Kawhi Leonard skoraði 30 stig fyrir Clippers sem seig með tapinu niður í þriðja sæti Vesturdeildar. Philadelphia er í fimmta sætinu austan megin og hefur unnið 25 af 27 heimaleikjum sínum.

Úrslitin í nótt:

Philadelphia - LA Clippers 110:103
Washington - Chicago 126:114
New Orleans - Portland 138:117
Oklahoma City - San Antonio 106:114
Houston - Boston 116:105

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert