„Örugglega hundfúlt að sitja heima“

Ólafur Ólafsson brýst upp að körfu Fjölnis í dag.
Ólafur Ólafsson brýst upp að körfu Fjölnis í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, segir eitt af markmiðum liðsins fyrir tímabilið hafi verið að komast í bikarúrslitaleikinn. Það náðist í dag þegar Grindavík sigraði Fjölni 91:74 í undanúrslitum Geysisbikarsins í körfuknattleik í Laugardalshöllinni. 

„Öll lið setja sér það markmið að komast hingað. Það er örugglega hundfúlt að sitja heima og horfa á úrslitaleikinn í sjónvarpi. Við settum okkur markmið fyrir tímabilið og eitt þeirra var að komast í úrslitaleikinn. Þegar flautan gall þá fylgdi því geggjuð tilfinning að vera komnir í bikarúrslitin. Við erum því bara spenntir fyrir laugardeginum,“ sagði Ólafur þegar mbl.is ræddi við hann í Laugardalshöllinni en Ólafur skoraði 14 stig gegn Fjölni. 

Tímabilið hjá Grindavík hefur ekki beinlínis gengið eins og í draumi. Dagur Kár Jónsson er frá vegna meiðsla og liðið hefur verið sveiflukennt í leikjum. 

„Við misstum Dag út og hann er leikstjórnandinn okkar. Við þurftum að finna lausn við því. Ingvi [Þór Guðmundsson] hefur þroskast mikið í því að stjórna leiknum en einnig finnst mér Serbinn [Miljan Rakic] koma með smá yfirvegun inn á völlinn. Menn ná ekki boltanum af honum og hann er rólegur þegar hann setur upp kerfin þótt hann hafi ekki byrjað neitt svakalega vel hjá okkur.“

Fjölnir hafði yfirhöndina lengi vel í leiknum í dag en Ólafur sagðist hafa haft á tilfinningunni að Grindavík gæti snúið taflinu sér í vil í síðari hálfleik. 

„Mér fannst við vera mjög slakir í fyrri hálfleik en samt bara fjórum stigum undir. Ég sagði það inni í búningsklefa í hléi og sagði að ef við myndum bæta okkur þá myndum við klárlega vinna leikinn. Það gerðist og vendipunkturinn var þegar Sigtryggur Arnar [Björnsson] skoraði flautukörfuna undir lok þriðja leikhluta. Þá færðist stemningin yfir til okkar,“ sagði Ólafur Ólafsson við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert