Fara í fyrstu leikina án þriggja atvinnumanna

Tryggvi Snær Hlinason verður með gegn Kósóvó og Slóvakíu.
Tryggvi Snær Hlinason verður með gegn Kósóvó og Slóvakíu. mbl.is/Hari

Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Zaragoza á Spáni, verður eini atvinnumaðurinn erlendis sem leikur með íslenska karlalandsliðinu í körfuknattleik í fyrstu tveimur leikjum þess í forkeppni heimsmeistaramótsins.

Ísland mætir Kósóvó á útivelli í fyrsta leiknum næsta fimmtudag, 20. febrúar, og tekur á móti Slóvakíu í Laugardalshöllinni sunnudagskvöldið 23. febrúar. Fjórða liðið í riðlinum er Lúxemborg en tvö þeirra komast áfram á næsta stig keppninnar.

Martin Hermannsson er að spila með Alba Berlín í Evrópudeildinni, Euroleague, á sama tíma og er auk þess tæpur vegna meiðsla. Elvar Már Friðriksson hjá Borås í Svíþjóð og Haukur Helgi Pálsson hjá UNICS Kazan í Rússlandi eru meiddir og þá gefur KR-ingurinn Kristófer Acox ekki kost á sér þar sem hann er að jafna sig af meiðslum.

Craig Pedersen var endurráðinn þjálfari liðsins á dögunum og Baldur Þór Ragnarsson er aðstoðarþjálfari hans líkt og áður og sér um styrktarþjálfun liðsins að auki. Ein breyting hefur orðið á aðstoðarþjálfarateyminu en Finnur Freyr Stefánsson verður ekki með liðinu áfram en hann er við störf sem aðalþjálfari Horsens í Danmörku. Í hans stað hefur Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari karlaliðs Keflavíkur, verið ráðinn sem einn af aðstoðarþjálfurum landsliðsins en hann hefur þjálfað áður yngri landslið Íslands á ýmsum aldursstigum.

Leikmannahópurinn verður þannig skipaður, landsleikjafjöldinn fyrir framan:

6 Breki Gylfason, Haukum
18 Gunnar Ólafsson, Stjörnunni
15 Hjálmar Stefánsson, Haukum
82 Hörður Axel Vilhjálmsson, Keflavík
10 Kári Jónsson, Haukum
13 Kristinn Pálsson, Njarðvík
73 Pavel Ermolinskij, Val
9 Pétur Rúnar Birgisson, Tindastóli
8 Sigtryggur Arnar Björnsson, Grindavík
4 Tómas Þórður Hilmarsson, Stjörnunni
37 Tryggvi Snær Hlinason, Zaragoza
61 Ægir Þór Steinarsson, Stjörnunni

mbl.is