Skalla­grím­ur of stór biti fyr­ir Hauka

Keira Robinson hjá Skallagrími með boltann í kvöld. Haukakonurnar Bríet …
Keira Robinson hjá Skallagrími með boltann í kvöld. Haukakonurnar Bríet Lilja Sigurðardóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir eru til varnar. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Skallagrímur mætir KR í úrslitum bikarkeppni kvenna í körfuknattleik, Geysisbikarnum, eftir sjö stiga sigur gegn Haukum í undanúrslitum keppninnar í Laugardalshöll í kvöld. Leiknum lauk með 86:79-sigri Borgnesinga sem voru með yfirhöndina í leiknum frá fyrstu mínútu.

Það var mikill kraftur í báðum liðum til að byrja með og þau skiptust á að skora. Eftir þriggja mínútna leik leiddu Skallarnir með einu stigi, 8:7, en þá tók við mjög góður kafli hjá Borgnesingum á meðan ekkert gekk upp hjá Hafnfirðingum í sóknarleiknum. Keira Robinson setti niður þriggja stiga körfu þegar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta og kom Skallagrími ellefu stigum yfir, 22:11. Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari Hauka, fékk þá nóg og tók leikhlé. Við það hrökk sóknarleikur Haukanna í gang en varnarleikurinn lét á sér standa og Skallagrímur leiddi með ellefu stigum eftir fyrsta leikhluta, 27:16.

Haukar byrjuðu annan leikhluta vel og Anna Lóa Óskarsdóttir minnkaði forskot Skallagríms níður í níu stig með fallegu gegnumbroti. Þetta kveikti í Sköllunum og Emilie Hesseldal setti niður tvær þriggja stiga körfur í röð fyrir og allt í einu var staðan orðin 38:21, Skallagrími í vil. Haukar fóru upp í sókn, töpuðu boltanum, en þá tókst Randi Brown, leikmanni Hauka, að fiska ruðning á Skallana. Þetta kveikti svo sannarlega í Hafnfirðingum og þeim tókst að minnka forskot Skallagrím í fimm stig þegar Bríet Lilja Sigurðardóttir setti niður sína aðra þriggja stiga körfu í leiknum.

Skallarnir voru hins vegar sterkari undir lok annars leikhluta og Keira Robinson setti niður þriggja stiga flautukörfu undir lok fyrri hálfleiks og Skallarnir leiddu því með ellefu stigum í hálfleik, 49:38. Haukar byrjuðu síðari hálfleikinn af þvílíkum krafti og eftir fimm mínútna leik minnkaði Þóra Kristín Jónsdóttir muninn í einungis þrjú stig þegar hún setti niður þriggja stiga körfu úr horninu. Liðin skiptust á að skora eftir þetta og áfram var munurinn þrjú stig þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Þá fékk Lovísa Björt Henningsdóttir sína fjórðu villu í liði Hauka, Skallarnir gengu á lagið og Borgnesingar leiddu með níu stigum fyrir fjórða leikhluta, 66:57.

Haukarnir byrjuðu fjórða leikhluta af krafti og tókst að minnka forskot Skallagríms niður í sex stig. Eftir það köstuðu Hafnfirðingar boltanum frá sér í næstu tveimur sóknum og Borgnesingar gengu á lagið. Þegar sjö mínútur voru til leiksloka voru Borgnesingar þrettán stigum yfir, 72:59. Haukar fengu nokkur tækifæri til þess að minnka muninn en töpuðu boltanum á klaufalegan hátt í sóknarleiknum. Þóra Kristín Jónsdóttir minnkaði muninn í níu stig með fallegri þriggja stiga körfu þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Randi Brown lagaði svo stöðuna fyrir Hauka á lokasekúndum leiksins en þá voru úrslitin löngu ráðin og Skallagrímur fagnaði sigri. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Skallagrímur 86:79 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is