Nýliðinn strax búinn að setja met

Zion Williamson ætlar að standa undir miklum væntingum.
Zion Williamson ætlar að standa undir miklum væntingum. AFP

Nýliðinn efnilegi Zion Williamson er þegar búinn að setja met í NBA-deildinni í körfuknattleik eftir að hafa spilað aðeins tólf leiki með New Orleans Pelicans.

Williamson, sem missti af fyrstu 43 leikjum tímabilsins vegna meiðsla, skoraði 32 stig gegn Oklahoma City Thunder í nótt og varð með því yngsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að skora tuttugu stig eða meira í sex leikjum í röð. Hann er aðeins nítján ára gamall og verður tvítugur í júlí. Framlag hans nægði þó ekki því New Orleans mátti sætta sig við tap á heimavelli, 118:123.

Boston Celtics lagði Los Angeles Clippers að velli í stórleik í Boston, 141:133, þar sem staðan var 114:114 eftir venjulegan leiktíma. Leikurinn var tvíframlengdur. Jayson Tatum skoraði 39 stig fyrir Boston og tók 9 fráköst og Lou Williams skoraði 35 stig fyrir Clippers. Boston er með 38 sigra í 54 leikjum í þriðja sæti Austurdeildar en Clippers er í þriðja sæti Vesturdeildar með 37 sigra í 55 leikjum.

Þetta voru tveir síðustu leikirnir fyrir stjörnuleikshelgi NBA en hún er haldin í Chicago að þessu sinni og sjálfur leikurinn þar sem lið LeBron James og Giannis Antetokounmpo eigast við hefst kl. eitt að íslenskum tíma aðfaranótt mánudags.

mbl.is