„Magnað andrúmsloft“

Emilie Sofie Hesseldal reynir að loka á Hildi Björgu Kjartansdóttur …
Emilie Sofie Hesseldal reynir að loka á Hildi Björgu Kjartansdóttur í úrslitaleiknum í dag. Gekk það nokkuð vel á heildina litið en Hildur skoraði 10 stig. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

„Þetta er mögnuð upplifun,“ sagði danska landsliðskonan, Em­ilie Sofie Hesseldal þegar mbl.is ræddi við hana í Laugardalshöll í dag þar sem hún varð bikarmeistari með Skallagrími eftir sigur á KR í úrslitaleik Geysisbikarsins 66:49. 

„Mér var tjáð nú rétt áðan að þetta sér fyrsti bikarmeistaratitill félagsins. Eykur það enn frekar stemninguna. Andrúmsloftið var magnað. Mætingin úr Borgarnesi var mjög góð og stuðningsmenn okkar voru háværir sem hjálpaði mjög til. Við fundum fyrir þreytu eftir undanúrslitaleikinn og stuðningsmennirnir gáfu okkur kraft þegar leið á leikinn. Það kann ég að meta.“

Eins og Hesseldal bendir á þá sáust þreytumerki hjá leikmönnum liðanna sem spiluðu margar mínútur í undanúrslitunum en undanúrslitin voru á fimmtudagskvöldið og því einungis einn dagur á milli leikja. 

„Við þurftum að passa vel upp á líkamlegu hliðina í gær því tíminn til að endurheimta orku og styrk var naumur.“

Hesseldal er hæfileikaríkur leikmaður og hefur sýnt það í vetur með Skallagrími. Hún átti hins vegar erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik. Skoraði þá aðeins eitt stig og fékk 3 villur. Hún sýndi hins vegar styrk og keppnisskap í síðari hálfleik og þá skilaði hún 9 stigum og tók alls 8 fráköst í leiknum. 

„Þetta var spurning um hugarfar. Ég vissi að leikurinn á fimmtudag myndi sitja eitthvað í mér en ég komst ekki almennilega yfir það í fyrri hálfleik. Í hálfleik hugsaði ég með mér að það væri nú eða aldrei. Ég er fyrst og fremst keppnismanneskja og gaf allt sem ég átti í leikinn í síðari hálfleik,“ sagði Hesseldal í samtali við mbl.is.  

mbl.is