Lítið um ræðuhöld hjá farsælum fyrirliða

Grundfirðingurinn Hlynur Bæringsson og Þingeyringurinn Ágúst Angantýsson með bikarinn á …
Grundfirðingurinn Hlynur Bæringsson og Þingeyringurinn Ágúst Angantýsson með bikarinn á sigurstundu í gær. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

Hlynur Bæringsson, fyrirliði Stjörnunnar, jafnaði met Guðjóns Skúlasonar þegar hann varð bikarmeistari í gær en Stjarnan lagði Grindavík að velli í úrslitaleik Geysisbikarsins í körfuknattleik. 

Guðjón var fjórum sinnum fyrirliði bikarmeistaraliða hjá Keflavík og hefur met hans staðið frá árinu 2003. Hlynur hefur nú einnig farið fjórum sinnum fyrir bikarmeistaraliðum með Snæfelli og Stjörnunni.

„Já ókei. Þetta er góður félagsskapur og ég bið bara að heilsa Gauja sama hvar hann er niðurkominn. Ég hafði ekki hugmynd um þetta og þetta skiptir mig ekki miklu máli núna en yljar ábyggilega seinna meir,“ sagði Hlynur en ártölin sem sjá má í meðfylgjandi frétt sýna að Hlyni var mjög snemma treyst fyrir fyrirliðastöðunni á ferlinum. Hér má hnýta því við að Hlynur var landsliðsfyrirliði árum saman. 

„Ég held að ég hafi verið orðinn fyrirliði í Stykkishólmi árið 2002 en mig minnir að ég hafi ekki náð því í Borgarnesi þar áður. Ég hafði bara verið í Svíþjóð í nokkra mánuði þegar ég var orðinn fyrirliði Sundsvall. Ég veit ekki af hverju. Ég er ekki endalaust að halda einhverjar ræður. Af og til kannski. Mögulega hefur þetta eitthvað með leikstílinn að gera,“ sagði Hlynur og bætir glottandi við ummælum sem Ægir Þór Steinarsson liðsfélagi hans hafði um fyrirliða sinn sem þó eru ekki endilega mesta hól sem Hlynur Bæringsson hefur fengið á glæsilegum ferli. 

„Í fótbolta er oft talað um klafs í teignum. Ægir segir að mitt besta útspil á körfuboltavellinum sé klafs þegar ekkert er að gerast. Hann sagði við mig um daginn: „Veistu það Hlynur, ég hef spilað með þér lengi en nú sá ég þig í fyrsta skipti gera eitthvað mjúkt.“ Hann sagði þetta í alvöru. Þetta var sem sagt í fyrsta skipti sem hann hafði séð mig gera eitthvað á vellinum sem einhver fagurfræði var í. Hæfileikarnir eru því ekki miklir en maður þarf að nýta það sem maður hefur því ekki erum við allir eins og hann.“

Stefnan sett á sigur á Íslandsmótinu

Hlynur verður öllu alvarlegri þegar hann færir í tal löngun sína og samherjanna til að verða Íslandsmeistarar. Það hefur karlaliði Stjörnunnar aldrei tekist í körfunni (og raunar ekki heldur í handboltanum).

„Eins og það er nú gaman að verða bikarmeistari þá er ekkert leyndarmál að við erum með stærra takmark. Það er númer eitt og við erum að stefna að því en auðvitað er bikarinn skemmtileg slaufa á leiðinni. Þetta er gott partý þar sem Bjartmar mætir og maður tekur lagið með honum. Það er orðið langt síðan ég varð Íslandsmeistari. Ég varð Íslandsmeistari árið 2010 og Svíþjóðarmeistari árið 2011. Það er kominn tími á það,“ sagði Hlynur og neitar því ekki að hann hafi verið bjartsýnn fyrir bikarleikina eftir gott gengi í deildinni þar sem Stjarnan er á toppnum. 

Hlynur Bæringsson tekur á móti Íslandsbikarnum árið 2010 sem fyrirliði …
Hlynur Bæringsson tekur á móti Íslandsbikarnum árið 2010 sem fyrirliði Snæfells. Hlynur segir kominn tíma á að endurtaka leikinn. mbl.is/hag

„Ég var ekki sigurviss en ég var mjög bjartsýnn. Við erum með ofboðslega mikið sjálfstraust þótt við séum langt frá því að vera gallalaust lið. Það eru fullt af holum í okkar leik en nú þarf þetta að leiða lengra,“ sagði Hlynur en í fyrra varð Stjarnan bikarmeistari og deildarmeistari eins og nú stefnir í. Liðið féll hins vegar úr keppni í undanúrslitum Íslandsmótsins gegn ÍR. 

Hlynur reynir að hreinsa upp eftir Ægi félaga sinn sem …
Hlynur reynir að hreinsa upp eftir Ægi félaga sinn sem er búinn að missa Sigtrygg Arnar Björnsson frá sér í úrslitaleiknum. Ljósmynd/KKÍ/Jónas
mbl.is