Martin bikarmeistari og stigahæstur

Martin Hermannsson er þýskur bikarmeistari.
Martin Hermannsson er þýskur bikarmeistari.

Martin Hermannsson og samherjar hans hjá Alba Berlín eru þýskir bikarmeistarar eftir 89:67-sigur á Oldenburg í úrslitaleiknum í Berlín í kvöld. Martin náði þar með að hefna fyrir grátlegan ósigur í úrslitunum í fyrra.

Jafnræði var meðal liðanna í fyrri hálfleik og var staðan 43:40 í hléinu, Oldenburg í vil. Martin og félagar færðu sig svo upp á skaftið í síðari hálfleiknum, unnu þriðja leikhlutann 25:8, og var þá ekki aftur snúið. Martin sjálfur átti frábæran leik; skoraði 20 stig, flest allra, tók eitt frákast og gaf tvær stoðsendingar en hann spilaði í 23 mínútur.

Alba Berlín tapaði úrslitaleiknum í fyrra gegn Brose Bamberg þar sem sigurkarfan kom tveimur sekúndum fyrir leikslok.

Er þetta fyrsti titill Martins í atvinnumennskunni en Alba Berlín hafnaði í 2. sæti í þremur keppnum í fyrra. Hann er jafnframt fyrsti íslenski körfuboltamaðurinn sem vinnur titil í Þýskalandi en það hefur áður gerst í knattspyrnunni og handknattleiknum. 

mbl.is