Breyttar reglur þýða meira fjör

Joel Embiid og Anthony Davis í baráttu um boltann. Davis …
Joel Embiid og Anthony Davis í baráttu um boltann. Davis skoraði sigurstigin fyrir lið LeBron James. AFP

Eins og fram kom í morgun vann lið LeBron James hinn árlega stjörnuleik NBA, 157:155, eftir æsispennandi viðureign í lokaleikhlutanum gegn liði Giannis Antetokounmpo í United Center í Chicago í nótt. 

NBA-deildin ákvað nýlega að breyta reglum stjörnuleiksins þar sem liðin voru að reyna að vinna pening fyrir líknarmálefni með því að vinna einstaka leikhluta, en í fjórða leikhlutanum þurfti síðan vinningsliðið að skora 24 stig í leikhlutanum og vera í forystunni þá til að sigra. Þessar reglur komu í kjölfar breytinga í fyrra þegar liðin tvö í leiknum voru ekki alfarið samansett af leikmönnum úr Austur- og Vesturdeild, en valin þess í stað að hluta af fyrirliðum þeirra. 

Í gegnum áratugina hefur oft verið lítil spenna á lokamínútum leiksins ef annað liðið hefur náð afgerandi forystu. Með því að setja stigamark í lokaleikhlutanum, var hugmyndin sú að í stað leikklukku sem ákvarðaði endann á leiknum, myndi stigaskorunin sjálf enda hann.

Fyrstu þrír leikhlutarnir litu út eins og venjulegir stjörnuleikir þar sem fjörið skipti öllu máli, en í lokaleikhlutanum þetta árið tók alvaran við. Leikmenn og dómarar tóku leikinn mun alvarlegar og allt í einu skipti hvert stig máli. Það var loks Anthony Davis hjá Los Angeles Lakers sem skoraði sigurstigið úr vítaskoti. 

Kawhi Leonard hjá Los Angeles Clippers var kosinn maður leiksins eftir að hafa skorað 30 stig og hann var fyrsti leikmaðurinn að vinna þann titil eftir að nafnbótin var nefnd eftir Kobe Bryant. „Leikmenn voru á fullu að leika vörn í lokaleikhlutanum og voru að fórna sér fyrir ruðningsdóma. Við höfum venjulega ekki séð það í þessum leikjum hingað til,“ sagði Leonard á blaðamannafundi eftir leikinn. 

Deildin mun sennilega halda áfram að fúska eitthvað með reglur leiksins, en svo virðist sem núverandi stigareglur geti gert þennan leik meira spennandi í lokin en oft áður.

Á laugardagskvöld vann Derrick Jones Jr. frá Miami Heat troðslukeppnina eftir hörkuviðureign gegn Aaron Gordon frá Orlando Magic og Buddy Hield frá Sacramento Kings vann þriggja stiga skotkeppnina eftir að hafa sett sjö af átta síðustu skotum sínum niður gegn Devin Booker frá Phoenix Suns í skemmtilegum lokaúrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert