Auðvitað erum við vonsviknir

Craig Pedersen ræðir við sína menn í kvöld.
Craig Pedersen ræðir við sína menn í kvöld. Ljósmynd/FIBA

„Auðvitað erum við vonsviknir,“ sagði Craig Pedersen landsliðsþjálfari eftir naumt 78:80-tap fyrir Kósóvó á útivelli í forkeppni HM 2023. Pedersen segir Dardan Berisha hafa ráðið úrslitum í kvöld, en hann er besti leikmaður Kósóvó. 

„Þetta var leikur sem okkur fannst við geta unnið. Við vissum hver væri þeirra lykilmaður en hann komst í færi í nokkrar mínútur í seinni hálfleik og setti niður erfið skot. Við vissum að hann gæti það ef hann dytti í gang. Hann réð að lokum úrslitum,“ sagði Pedersen sem var ánægður með margt, þrátt fyrir tapið. 

„Við gerðum margt vel í kvöld, en á sama tíma var margt sem við ætluðum okkur sem gekk ekki upp. Þeir gerðu vel í að stöðva Tryggva, en svo fundum við lausnir og fundum fleiri opin skot en ég gat leyft mér að vona. Við hefðum hins vegar mátt nýta færin betur. 

Ég er ánægður með hvernig við fórum með boltann. Við misstum hann aðeins sex sinnum og þessir þristar sem Kári setti í lokin gætu reynst mjög mikilvægir. Nú þurfum við bara að vinna þá heima með þremur stigum til að vinna þá innbyrðis. Það er mun skárra en að þurfa að vinna með átta eða tíu stigum. Ef þú getur ekki unnið, þá skaltu reyna að tapa með sem fæstum stigum.“

Ísland mætir Slóvakíu í Laugardalshöll á sunnudaginn kemur og verður hreinlega að vinna, ætli liðið sér áfram úr riðlinum og í næstu undanriðla. 

„Við fengum bara æfa í tvo daga, eins og þeir, en þeirra leikmenn hafa spilað saman áður og þeir þekkjast betur. Við gerðum mjög vel miðað við aðstæður. Við reynum að byggja á þessu gegn Slóvakíu á heimavelli. Það er mjög mikilvægt að vinna á heimavelli,“ sagði Pedersen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert