Erfitt að pirra sig á þessu tapi

Hörður Axel með boltann í kvöld.
Hörður Axel með boltann í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Hörður Axel Vilhjálmsson var nokkuð brattur þegar mbl.is heyrði í honum í kvöld, þrátt fyrir 78:80-tap fyrir Kósóvó í forkeppni HM sem fram fer árið 2023. Tryggvi Snær Hlinason var eini atvinnumaðurinn í íslenska liðinu og vantaði marga lykilmenn. 

„Þetta er bæði og, við spiluðum hörkuvel fannst mér. Við höfðum bara farið á tvær æfingar og við erum nánast með glænýtt lið. Það vantar ansi marga en aðrir stigu upp. Það er erfitt að pirra sig á þessu tapi þegar það er svoleiðis,“ sagði Hörður, sem segir að lítið hafi skilið á milli. 

„Gezim Morina setti niður risaskot þegar við tókum sénsinn á að gefa honum skotið. Hann refsaði okkur fyrir það. Mér fannst við búa til skot út um allt en þetta var spurning um að setja þau niður í rauninni. Við vorum flottir í vörninni og fengum þá í það sem við vildum að þeir myndu gera. Ég er stoltur af liðinu og frammistöðunni.“

Stuðningsmenn Kósóvó létu vel í sér heyra allan leikinn og var stemningin mikil. „Það voru mikil læti og þetta minnti á andrúmsloftið sem var í Bosníu þegar við spiluðum þar fyrir EM 2015. Þá náðum við í góð úrslit og þetta fannst mér vera góð úrslit; að halda þeim í tveimur stigum þegar það vantaði svona marga. Við eigum enn eftir seinni leikinn.“

Ísland mætir Slóvakíu á heimavelli á sunnudaginn kemur og má ekki við því að tapa fyrstu tveimur leikjunum. „Við erum í þessum riðli til að vinna hann. Okkur finnst við ekki vera á þessu leveli sem þessi riðill er á en við erum að súpa seyðið eftir mistökin í Sviss,“ sagði Hörður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert