Martin lykilmaður í sigurleik í Pétursborg

Martin Hermannsson með boltann í leiknum í kvöld en Anton …
Martin Hermannsson með boltann í leiknum í kvöld en Anton Ponkrashov fylgist með honum. Ljósmynd/Euroleague

Martin Hermannsson fór á kostum með Alba Berlín í Evrópudeildinni í körfuknattleik, Euroleague, á meðan félagar hans í landsliðinu voru í baráttunni í Kósóvó.

Martin var stigahæsti leikmaður vallarins og líka með flestar stoðsendingar allra þegar Alba knúði fram góðan útisigur gegn Zenit í rússnesku borginni Pétursborg, 83:81, eftir æsispennandi lokamínútur.

Martin kom þar mikið við sögu því á síðustu 30 sekúndunum tók hann frákast, átti stoðsendingu og skoraði af vítalínunni. Hann gerði alls 24 stig í leiknum, átti 7 stoðsendingar og tók 4 fráköst fyrir þýsku bikarmeistarana en Martin spilaði jafnframt mest allra leikmanna Alba í leiknum eða í tæplega 31 mínútu.

Þetta var níundi sigur Alba í 25 leikjum í deildinni í vetur og fór liðið með sigrinum upp um eitt sæti og er nú í 15. sæti af 18 liðum, á undan Lyon, Bayern München og Zenit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert