Þjálfari í NBA stígur til hliðar

John Beilein er hættur sem þjálfari Cleveland Cavaliers.
John Beilein er hættur sem þjálfari Cleveland Cavaliers. AFP

John Beilein sagði í dag upp störfum sem þjálfari Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta. Beilein tók við Cleveland fyrir níu mánuðum og stýrði liðinu í 54 leiki. 

Beilein, sem er einn sigursælasti þjálfarinn í sögu háskólaboltans í Bandaríkjunum, stýrði Cleveland til sigurs í 14 leikjum, en til taps í 40 leikjum. Hann skrifaði undir fimm ára samning við Cleveland fyrir leiktíðina og mun áfram starfa hjá félaginu í öðru hlutverki. 

Beilein viðurkennir að það hafi tekið meira á að þjálfa í NBA en hann átti von á. „Þetta var mjög erfið ákvörðun. Ég tók þessa ákvörðun og ég er þakklátur stjórninni fyrir skilninginn.

Þetta hefur verið miklu erfiðara tímabil en ég átti von á og ég hefði haft áhyggjur af eigin heilsu ef ég hefði haldið áfram. Það er því best fyrir alla að ég stígi til hliðar,“ sagði Beilein við heimasíðu NBA. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert