Ekki góðir heldur virkilega góðir

Craig Pedersen ræðir við lærisveina sína í kvöld.
Craig Pedersen ræðir við lærisveina sína í kvöld. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

„Orkan í liðinu var mjög mikil og góð,“ sagði kátur Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karlaliðsins í körfubolta, eftir 83:74-sigur á Slóvakíu í forkeppni HM 2023 í Laugardalshöll í kvöld. 

„Það voru margir leikmenn sem gerðu mismunandi hluti vel í kvöld. Það var gaman að sjá leikmenn eins og Kára og [Sigtrygg] Arnar sem hafa ekki verið með liðinu að undanförnu að spila vel, ekki bara í kvöld, heldur líka í Kósóvó,“ sagði Pedersen, en Ísland tapaði naumlega fyrir Kósóvó á fimmtudag. 

„Heimavöllurinn skiptir máli og við skutum betur en á móti Kósóvó. Kósóvóarnir settu erfið skot niður á meðan við klikkuðum á opnum skotum. Kósóvó er með gott lið, góða leikmenn og góða þjálfara. Þeir eru stórir og sterkir. Ef þú spilar ekki vel á móti Kósóvó muntu eiga erfitt. Í dag náðum við að verja heimavöllinn okkar.“

Tryggvi Snær Hlinason var langbesti leikmaður vallarins og skilaði ótrúlega góðum tölum, eins og mbl.is hefur greint frá í kvöld. Pedersen var vitaskuld ánægður með Tryggva. 

Hans langbesti leikur með landsliðinu

„Tölfræðilega var þetta hans langbesti leikur með landsliðinu. Hann var óstöðvandi í teignum stærstan hluta leiks og skoraði, sendi vel, stal boltanum, varði hann, tók fráköst. Hann var æðislega góður.“

Þá var Pedersen einnig ánægður með að fá Pavel Ermolinskij og Ægi Þór Steinarsson inn í liðið, en þeir léku ekki gegn Kósóvó en spiluðu mjög vel í kvöld. 

„Þeir voru ekki góðir, þeir voru virkilega góðir. Vörnin hjá þeim báðum var svakaleg. Ægir er besti varnarmaður landsins í leikstjórnandahlutverkinu og Pavel í framherjahlutverkinu. Þeir voru gríðarlega mikilvægir í dag og ég er ánægður með að fá þá aftur,“ sagði Pedersen. 

mbl.is