Stórstjörnurnar sáu um stigaskor Houston

James Harden skoraði 38 stig fyrir Houston Rockets í nótt.
James Harden skoraði 38 stig fyrir Houston Rockets í nótt. AFP

James Harden og Russell Westbrook, leikmenn Houston Rockets í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik, fóru á kostum í nótt þegar liðið sótti Utah Jazz heim. Leiknum lauk með 120:110-sigri Houston en Harden var stigahæstur í liði Houston með 38 stig og Westbrook kom þar á eftir með 34 stig.

Þeir skoruðu því 72 stig á milli sín en Harden gaf einnig sjö stoðsendingar í leiknum á meðan Westbrook tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Houston er nú komið í fjórða sæti Vesturdeildarinnar en liðið er með 36 sigra, líkt og Utah Jazz, en LA Lakers er sem fyrr á toppi Vesturdeildarinnar með 42 sigra.

Þá skoraði Giannis Antekounmpo 31 stig og tók sautján fráköst þegar Milwaukee Bucks vann öruggan 119:98-heimasigur gegn Philadelphia 76ers. Milwaukee er með nokkuð öruggt forskot á toppi Austurdeildarinnar en liðið er með 48 sigra og hefur sjö sigra forskot á Toronto Raptors sem er í öðru sætinu.

Úrslit næturinnar í NBA:

LA Clippers 103:112 Sacramento Kings
Charlotte Hornets 86:115 Brooklyn Nets
Atlanta Hawks 111:107 Dallas Mavericks
Miami Heat 124:105 Cleveland Cavaliers
Chicago Bulls 104:112 Phoenix Suns
Milwaukee Bucks 119:98 Philadelphia 76ers
Utah Jazz 110:120 Houston Rockets

mbl.is