Gríska undrið hafði hægt um sig í toppslagnum

Giannis Antetokounmpo skoraði 19 stig í toppslag Austurdeildarinnar.
Giannis Antetokounmpo skoraði 19 stig í toppslag Austurdeildarinnar. AFP

Giannis Antetokounmpo hafði hægt um sig í stigaskorun þegar lið hans Milwaukee Bucks vann 108:97-útisigur gegn meisturum Toronto Raptors í toppslag Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt. Antetokounmpo skoraði 19 stig og tók nítján fráköst en jafnræði var með liðunum, allt þangað til í þriðja leikhluta þar sem Milwaukee skoraði 34 stig gegn 19 stigum Toronto og þar tapaðist leikurinn fyrir Toronto-menn.

Khris Middleton var stigahæstur í liði Milwaukee með 22 stig en hjá Toronto var það Pascal Siakam sem var atkvæðamestur með 22 stig. Milwaukee er með 50 sigra í efsta sæti Austurdeildarinnar og hefur nú átta sigra forskot á Toronto sem er í öðru sætinu með 42 sigra. Boston Celtics er í þriðja sætinu með 40 sigra og Miami Heat og Philadelphia 76ers koma þar á eftir með 36 sigra hvort.

Þá skoraði LeBron James 40 stig fyrir Los Angeles Lakers þegar liðið vann 118:109-sigur gegn New Orleans Pelicans á heimavelli. LeBron tók einnig átta fráköst og gaf átta stoðsendingar í leiknum en Lakers-menn voru með yfirhöndina í leiknum allan tímann. Brandon Ingram var stigahæstur New Orleans-manna með 34 stig en liðið er í tíunda sæti Vesturdeildarinnar með 25 sigra. Los Angeles Lakers er hins vegar á toppi Vesturdeildarinnar með 44 sigra, fjórum sigrum meira en Denver Nuggets.

Úrslit næturinnar í NBA:

Indiana Pacers 119:80 Charlotte Hornets
Toronto Raptors 97:108 Milwaukee Bucks
Chicago Bulls 122:124 Oklahoma City Thunder
Denver Nuggets 115:98 Detroit Pistons
Los Angeles Lakers 118:109 New Orleans Pelicans
Portland Trail Blazers 106:118 Boston Celtics
Golden State Warriors 94:112 Sacramento Kings 

LeBron James setti niður 40 stig fyrir Los Angeles Lakers …
LeBron James setti niður 40 stig fyrir Los Angeles Lakers í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert