KR missir lykilmann í meiðsli

Hildur Björg Kjartansdóttir verður frá næstu vikurnar og gæti mögulega …
Hildur Björg Kjartansdóttir verður frá næstu vikurnar og gæti mögulega misst af úrslitakeppninni með KR. Ljósmynd/KKÍ

Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðskona í körfuknattleik og leikmaður KR í úrvalsdeild kvenna, verður frá næstu sex vikurnar vegna meiðsla en þetta kemur fram á heimasíðu KR. Hildur fékk höfuðhögg í upphitun fyrir bikarúrslitaleikinn og aftur í leik gegn Haukum í deildinni stuttu síðar.

Í leiknum gegn Haukum fékk hún hné í kinnbeinið í baráttu um lausan bolta sem varð til þess að tvær sprungur mynduðust. Í fyrstu var talið að hún myndi missa af restinni af tímabilinu en nú telja læknar að hún gæti verið búin að ná sér góðri fyrir úrslitakeppnina.

Hildur Björg lék ekki með KR gegn Keflavík í síðustu umferð Dominos-deildarinnar en KR er í öðru sæti deildarinnar með 32 stig, átta stigum minna en topplið Vals, og sex stigum meira en Keflavík og Haukar. KR myndi mæta Keflavík í undanúrslitum Íslandsmótsins, eins og sakir standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert