Mikilvægt að taka rétt skref

Martin Hermannsson varð bikarmeistari með liði sínu Alba Berlín á …
Martin Hermannsson varð bikarmeistari með liði sínu Alba Berlín á dögunum. Ljósmynd/@albaberlin

„Þetta var vægast sagt góð vika en maður þarf líka að vera fljótur aftur niður á jörðina enda nóg eftir af tímabilinu,“ sagði bikarmeistarinn og körfuknattleikskappinn Martin Hermannsson í samtali við Morgunblaðið í gær.

Martin og liðsfélagar hans í Alba Berlín unnu 89:67-sigur gegn Oldenburg í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar í Berlín 16. febrúar síðastliðinn en Martin var stigahæstur í leiknum með 20 stig og var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins.

„Það mætti alveg segja að það sé ákveðnu fargi af manni létt að hafa unnið þennan bikarmeistaratitil. Síðasta tímabil var erfitt þar sem við töpuðum alls þremur úrslitaleikjum og það sat þungt á manni. Að sama skapi var jákvætt að komast í alla þessa úrslitaleiki en þegar allt kemur til alls man enginn hver það var sem endaði í öðru sæti. Það var þess vegna hrikalega sætt, ekki bara fyrir okkur sjálfa, heldur líka fyrir alla í kringum liðið og stuðningsmennina auðvitað, að fá loksins titil í hús. Í þessum þremur úrslitarimmum sem við töpuðum var ósigurinn alltaf tæpur. Við töpuðum sem dæmi baráttunni um meistaratitilinn í Þýskalandi 3:0-gegn Bayern en við töpuðum öllum þremur leikjunum með minna en fimm stiga mun. Það var erfitt að ganga í gegnum þetta allt í fyrra en að sama skapi lærði maður líka helling af þessum töpum. Ég reyndi að taka það með mér inn í úrslitaleikinn gegn Oldenburg núna og þessir ósigrar munu hjálpa manni í baráttunni um þann stóra næsta vor.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert