Áfram herja meiðsli á Íslandsmeistarana

Dino Cinac hefur skorað 14 stig að meðaltali fyrir KR …
Dino Cinac hefur skorað 14 stig að meðaltali fyrir KR síðan hann kom til félagsins um áramótin. mbl/is/Eggert Jóhannesson

Dino Cinac, leikmaður Íslandsmeistara KR í körfuknattleik, verður frá í óákveðinn tíma vegna meiðsla sem hann varð fyrir á æfingu liðsins á dögunum en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins, KR.is.

Cinac meiddist illa á auga á æfingu liðsins í síðustu viku þegar hann fékk putta í augað. Himnan rifnaði með þeim afleiðingum að það þurfti að sauma, augnbotn brotnaði og skurður myndaðist undir auganu. 

Óvíst er hvenær leikmaðurinn mun snúa aftur á völlinn en hann hefur ekkert æft með Vesturbæingum síðan atvikið átti sér stað. Cinac, sem er króatískur, kom til KR um síðustu áramót og hefur spilað vel.

Hann er með 14 stig að meðaltali í leik í deildinni í vetur, sex fráköst og eina stoðsendingu en KR er í fimmta sæti Dominos-deildarinnar með 22 stig þegar fjórir leikir eru eftir af deildarkeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert