NBA snýr aftur í fyrsta lagi í júní

Rudy Gobert varð fyrsti leikmaðurinn í NBA til að greinast …
Rudy Gobert varð fyrsti leikmaðurinn í NBA til að greinast með kórónuveiruna. AFP

NBA-körfuboltadeildin í Bandaríkjunum byrjar í fyrsta lagi aftur í júní, en henni var frestað um óákveðinn tíma í síðustu viku. ESPN í Bandaríkjunum greinir frá í dag. 

Þá óttast forráðamenn liðanna að hætt verði alfarið við yfirstandandi tímabil og það dæmt ógilt. Þykir þeim bandarísk stjórnvöld bregðast hægt og illa við útbreiðslu veirunnar og vegna þessa  yrði ekki hægt að spila hópíþróttir með áhorfendum næstu mánuðina. 

Upprunalega átti að spila leiki í deildinni án áhorfenda vegna útbreiðslu veirunnar en um leið og Rudy Gobert, leikmaður Utah Jazz, greindist með veiruna, var hætt við alla leiki ótímabundið. 

Að sögn ESPN kemur þrennt til greina; leikir haldi áfram án aðdáenda, að hætta alfarið við tímabilið og svo að fara beint í úrslitakeppnina og spila hana án áhorfenda. 

mbl.is