NBA skoðar kínversku leiðina til að halda áfram

LeBron James er ekki hrifinn af hugmyndum um að spila …
LeBron James er ekki hrifinn af hugmyndum um að spila án áhorfenda. AFP

Ef haldið verður áfram með yfirstandandi tímabil í NBA-deildinni í körfuknattleik verður nánast örugglega leikið án áhorfenda, samkvæmt frétt ESPN sem segir að í undirbúningi sé að ljúka tímabilinu í Bandaríkjunum á óvenjulegan hátt.

Þar er horft til Kínverja sem eru að undirbúa að halda áfram með sitt tímabil þar sem kórónuvírusinn er í rénun í landinu. Kínverjar ætla að einangra liðin til þess að draga úr líkunum á að smit berist á milli manna.

Varðandi NBA er verið að skoða þann möguleika að spila alla leikina á sama stað, t.d. í Las Vegas eða á Bahamaeyjum, eða jafnvel í háskóla í miðvesturríkjunum þar sem kórónuveiran hefur til þessa farið rólega yfir. 

LeBron James, leikmaður Los Angeles Lakers, hefur lýst sig andvígan hugmyndum um að leika án áhorfenda í deildinni.

„Ef LeBron James vill leika um meistaratitilinn á þessu ári verður hann að draga úr sínum væntingum. Svona sjá Kínverjarnir þetta, vera með öll liðin saman á einum stað þar sem hægt er að verja þau. LeBron talar fyrir hönd hluta deildarinnar og af miklum tilfinningum. En staðreyndin er sú að ef NBA fer aftur af stað fljótlega verður það í tómum höllum eða tómum flugskýlum þar sem settur er upp völlur. Þessari sviðsmynd þurfa leikmennirnir að fara að koma í kollinn á sér,“ skrifar Brian Windhorst, íþróttafréttamaður ESPN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert