Vijli fyrir því að ljúka Euroleague

Martin á ferðinni í Evrópukeppninni í vetur.
Martin á ferðinni í Evrópukeppninni í vetur. Ljósmynd/EuroLeague

Forráðamenn Euroleague, vinsælustu Evrópukeppni félagsliða í körfuboltanum, vilja að svo stöddu ekki aflýsa keppninni í ár. Hugmyndir eru uppi um að ljúka tímabilinu svo framarlega sem tími gefst til áður en næsta tímabil skellur á. 

Samkvæmt frétt í El Pais telur Euroleague ekki útilokað að hægt verði að taka upp þráðinn í tæka tíð og ljúka tímabilinu sem hefðbundnu fyrirkomulagi. 

Annar möguleiki sem einn af hæstsettu starfsmönnum Euroleague nefndi við El Pais er að ljúka keppninni í einni borg. Væri þá valin borg þar sem hægt væri að notast við fleira en eitt mannvirki. Engin borg hefur verði valin en líklegast er talið að Moskva, Istanbul eða Aþena komi helst til greina. 

Allt kemur þetta til með að skýrast eftir því hvernig þjóðum Evrópu gengur í glímunni við kórónuveiruna. Að svo stöddu er alla vega möguleiki á að Euroleague muni taka upp þráðinn í sumar. 

Martin Hermannsson hefur leikið með Alba Berlín í Euroleague í vetur. Leiknar hafa verið 28 umferðir af 34 en síðan er eftir átta liða úrslitakeppni um meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert