Verkefnum yngri landsliðanna aflýst

U16 ára lið karla í körfuknattleik sem stóð sig vel …
U16 ára lið karla í körfuknattleik sem stóð sig vel síðasta sumar. Ljósmynd/KKÍ

Engin verkefni verða í sumar fyrir yngri landslið Íslands í körfuknattleik en körfuknattleikssamband Evrópu, FIBA Europe, tilkynnti í dag að öllum mótum þeirra sem fram áttu að fara í sumar hefði verið aflýst.

Yngri landslið pilta og stúlkna áttu fyrir höndum Evrópumót víða um Evrópu í júlí og ágúst en U18 kvenna átti að fara til Austurríkis, U20 karla til Georgíu, U16 kvenna til Bosníu, U18 karla til Rúmeníu, U20 kvenna til Ísraels og U16 karla til Slóveníu á tímabilinu frá 3. júlí til 22. ágúst.

Þá hefur smáþjóðakeppni karla og kvenna verið aflýst en áfram stendur til að leika til úrslita í Evrópumótum félagsliða fullorðinna í haust og þar er stefnt á að spila í september og október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert