Engin sálarró ef tímabilið klárast ekki

LeBron James
LeBron James AFP

Enn er óvíst hvort hægt verði að halda áfram með yf­ir­stand­andi tíma­bil í NBA-deild­inni í körfuknatt­leik en keppninni var aflýst í síðasta mánuði vegna kórónuveirufaraldursins.

Forráðamenn deildarinnar leita nú leiða til að ljúka tímabilinu, m.a. með því að klára mótið á einum og sama staðnum og spila alla leiki án áhorfenda. LeBron James, ein frægasta stjarna deildarinnar, ætti nú að vera að undirbúa sig fyrir úrslitakeppnina með liði sínu Los Angeles Lakers en er þess í stað fastur heima.

„Ég mun ekki finna sálarró ef við fáum ekki tækifæri til að klára tímabilið,“ sagði LeBron í samtali við blaðamenn á fjarfundi. Los Angeles var á leið í úrslitakeppnina í fyrsta sinn síðan 2013 og var á toppi Vesturdeildarinnar og er LeBron að spila sitt 17. tímabil í deildinni.

Keppnin var stöðvuð 11. mars eftir að leikmenn deildarinnar greindust með kórónuveiruna en tveir leikmenn Los Angeles hafa fengið veiruna. LeBron segir þó alla orðna heilsuhrausta. „Það verða gífurleg vonbrigði ef við fáum ekki að klára tímabilið en ég skil samt hvað skiptir mestu máli næstu vikur og mánuði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert