Benedikt þjálfar hjá Fjölni

Benedikt Guðmundsson er kominn til Fjölnis.
Benedikt Guðmundsson er kominn til Fjölnis. mbl.is/Hari

Körfuknattleiksþjálfarinn reyndi Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna, mun starfa hjá Fjölni í Grafarvogi næsta árið en þetta staðfesti hann við mbl.is.

Hann verður þar þjálfari hjá 9. og 10. flokki karla og verður einnig með yngri iðkendur í minniboltanum hjá Fjölni, bæði drengi og stúlkur.

Eins og fram hefur komið er Benedikt farinn frá KR eftir að hafa þjálfað kvennalið félagsins með góðum árangri undanfarin þrjú ár.

Benedikt kannast vel við sig í Grafarvogi því þar þjálfaði hann meistaraflokk félagsins um þriggja ára skeið, frá 2003 til 2006. Liðið fór upp úr 1. deildinni á fyrsta árinu undir hans stjórn og var tvö seinni tímabilin í úrvalsdeildinni. Þá komst Fjölnir bæði í undanúrslit Íslandsmótsins og í úrslitaleik bikarkeppninnar sem er besti árangurinn í sögu félagsins.

mbl.is