Gríðarlega öflugt þjálfarateymi í Garðabænum

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, ásamt þeim Danielle Rodriguez og Inga …
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, ásamt þeim Danielle Rodriguez og Inga Þór Steinþórssyni á blaðamannafundi Stjörnunnar í Sjálandi í Garðabænum í dag. mbl.is/Bjarni Helgason

Danielle Rodriguez og Ingi Þór Steinþórsson verða aðstoðarþjálfarar Arnars Guðjónssonar hjá karlaliði Stjörnunnar í körfuknattleik á næstu leiktíð en þetta kom fram á blaðamannafundi félagsins í Sjálandi í Garðabæ í dag. Þau skrifa bæði undir eins árs samning við félagið en bæði munu þau einnig koma að þjálfun yngri flokka hjá Garðabæjarliðinu.

Inga Þór var sagt upp störfum sem þjálfari KR á dögunum eftir tvö ár í starf en hann gerði liðið að Íslandsmeisturum á síðustu leiktíð. Þetta var jafnframt sjötti Íslandsmeistaratitill Vesturbæinga á sex árum en KR var í fjórða sæti úrvaldeildarinnar, Dominos-deildarinnar, þegar tímabilið var flautað af vegna kórónuveirufaraldursins. 

Ingi Þór er á meðal reynslumestu þjálfara landsins en hann gerði KR einnig að Íslandsmeisturum árið 2010 og þá var hann aðstoðarþjálfari Benedikts Guðmundssonar þegar KR varð meistari 2009. Hann gerði kvennalið Snæfells einnig að Íslandsmeisturum árið 2014 til ársins 2016. Þá hefur hann þrívegis orðið bikarmeistari sem þjálfari og aðstoðarþjálfari.

Danielle Rodriguez hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik á ferlinum en hún mun einnig aðstoða Margréti Sturlaugsdóttur með kvennalið félagsins. Danielle kom hingað til lands frá Bandaríkjunum árið 2016 og lék í þrjú ár með Stjörnunni frá 2016 til 2019 en gekk svo til liðs við KR síðustu sumar og lék með liðinu í efstu deild á nýafstaðinni leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert