Með liðsfélaga á einkaæfingum

LeBron James.
LeBron James. AFP

LeBron James, einn besti körfuboltamaður heims og leikmaður Los Angeles Lakers, tekur einn til tvo liðsfélaga í senn á einkaæfingar til að búa sig undir að keppni haldi áfram í NBA-deildinni.

Íþróttafréttamaðurinn Shams Charania sem fjallar um NBA fyrir The Athletic segir að James sé ýmist með einn eða tvo liðsfélaga með sér í einu á lokuðum stað í einkaeigu, þar sem þeir hafi aðgang að velli. Allar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar, allir hafi gengist undir skimun vegna kórónuveirunnar, fjarlægðarmörk séu virt og allir fylgi settum reglum.

„Mér er sagt að hjá Clippers séu nokkrir leikmenn að gera þetta sama. Þetta er leið sem liðin geta farið til að leikmenn haldi sér í formi og geti verið samstilltir þegar deildin fer mögulega aftur í gang,“ sagði Charania.

Liðin í NBA-deildinni eru í misjafnri stöðu hvað undirbúning varðar því sérstakar reglur fyrir kórónuveiruna gilda í hverju ríki Bandaríkjanna fyrir sig. Vonast er til að keppni geti haldið áfram í sumar og þá verði farið beint í úrslitakeppnina en það sem eftir var af deildakeppninni verði blásið af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert