Landsliðsmaður orðaður við Belgíu og Þýskaland

Elvar Már Friðriksson átti afar góða fyrstu leiktíð í Svíþjóð.
Elvar Már Friðriksson átti afar góða fyrstu leiktíð í Svíþjóð.

Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta, átti gott tímabil með Borås í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Hefur frammistaða bakvarðarins vakið athygli því hann hefur verið orðaður við félög í Belgíu og Þýskalandi. 

Vill Elvar sjálfur spila í sterkari deild, en hann var valinn bakvörður ársins í sænska körfuboltanum fyrir síðustu leiktíð. Elvar spilaði alla 33 leiki Borås, skoraði 17 stig að meðaltali í leik og gaf átta stoðsendingar. Hann var stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar og stigahæsti leikmaður liðsins.

„Stefnan er að taka þetta skref fyrir skref og ég er búinn að heyra í liðum í Belgíu og Þýskalandi. Ég stefni á þær deildir núna og að reyna að koma fætinum inn um þær dyr,“ sagði Elvar í Sportinu í dag á Stöð 2 sport. 

Njarðvíkingurinn hefur spilað yfir 40 landsleiki og spilað með Denain Voltaire í Frakklandi sem og Barry-háskólanum í Miami í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert