Leikmennirnir vilja ekki spila

Martin Hermannsson í leik með Alba Berlín gegn Fenerbahce í …
Martin Hermannsson í leik með Alba Berlín gegn Fenerbahce í leik í Euroleague. Ljósmynd/Euroleague

Miklar líkur virðast nú vera á því að keppni í EuroLeague, sterkustu keppni félagsliða í evrópskum körfuknattleik, verði blásin af á morgun og tímabilinu 2019-20 því aflýst.

Þar leika átján lið, þar á meðal Alba Berlín, lið Martins Hermannssonar, en leiknar hafa verið 28 umferðir af 34, auk þess sem þar ætti að taka við átta liða úrslitakeppni um Evrópumeistaratitilinn. Keppni var stöðvuð í mars vegna útbreiðslu kórónuveirunnar en liðin í deildinni eru frá Spáni, Tyrklandi, Rússlandi, Ísrael, Grikklandi, Litháen, Ítalíu, Serbíu, Frakklandi og Þýskalandi.

Netmiðillinn Sportando segir í dag að leikmenn liðanna hafi komið stjórn deildarinnar í opna skjöldu með því að lýsa því yfir einróma á fundi um helgina að þeir séu andvígir því að halda áfram keppni. 

Ellefu félög með svokallað A-keppnisleyfi ráða ferðinni í deildinni og þau koma saman á morgun og greiða atkvæði um hvort tímabilinu verði lokið. Samkvæmt heimildum Sportando vilja Anadolu Efes, Maccabi Tel-Aviv og Barcelona halda áfram keppni en Olimpia Mílanó, CSKA Moskva, Fenerbahce, Panathinaikos og Olympiacos séu andvíg því. Óvíst sé með atkvæði hinna tveggja en það eru Baskonia frá Spáni og Zalgiris Kaunas frá Litháen.

Eurohoops segir að líkurnar á áframhaldi séu litlar. Leikmennirnir séu andvígir því, sem og flestir þjálfararnir, ásamt því að skoðanir séu skiptar innan félaganna. Þá hafi í hléinu sem verið hefur vegna farsóttarinnar komið upp sú staða að leikmenn treysti ekki eigendum félaganna og staðan sé því gjörólík því sem er vestan Atlantshafsins þar sem það séu leikmennirnir sem fyrst og fremst vilji halda áfram keppni í NBA.

Þá segir Eurohoops að líklegt sé að margir þeirra leikmanna sem séu með samninga sem renni út í sumar muni hafna því alfarið að taka þátt í því sem eftir lifir af keppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert