Darri og Garcia stýra KR-liðunum

Böðvar formaður körfuknattleiksdeildar, Garcia, Darri og Brynjar á fundinum í …
Böðvar formaður körfuknattleiksdeildar, Garcia, Darri og Brynjar á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Darri Freyr Atla­son og Francisco Garcia þjálfa meistaraflokkslið KR í körfuboltanum næsta vetur en það var staðfest á blaðamannafundi í Frostaskjóli rétt í þessu. 

Darri stýrir karlaliðinu og Garcia kvennaliðinu. 

Darri hætti í vor með kvennaliði Vals en hann gerði liðið að bikar-, deildar- og Íslandsmeisturum tímabilið 2018-19 og að deildarmeisturum 2020. Darri Freyr er 25 ára gam­all en hann tók við Valsliðinu sum­arið 2017.

Hann er uppalinn í Vesturbænum og hefur verið orðaður við þjálfarastöðu KR-inga síðan körfuknattleiksdeild félagsins staðesti brottrekstur Inga Þórs Steinþórssonar fyrir rúmum tveimur vikum en Darri þjálfaði áður yngri flokka hjá KR. 

Francisco Garcia er Spánverji og var áður hjá Skallagrími en þangað var hann ráðinn í fyrra sem yfirþjálfari körfuknattleiksdeildar. Garcia mun einnig koma að starfi yngri flokka hjá KR. 

Á heimasíðu KR er að finna þetta yfirlit um feril Garcia: „Hann hefur þjálfað í efstu deild kvenna á Spáni, var aðstoðarþjálfari U18 landsliðs kvenna á Spáni, landsliðsþjálfari U14 kvenna á Spáni, landsliðsþjálfari kvenna á Indlandi þar sem hann m.a. náði besta árangri liðsins í Asíu keppninni. Einnig hefur hann þjálfað í efstu deildum í Danmörku og Finnlandi.“

Brynjar Þór Björnsson, áttfaldur Íslandsmeistari með KR, verður yfirþjálfari yngri flokka.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert