Sterkasta deildin blásin af - Íslendingaliðin halda sætunum

Martin Hermannsson í leik með Alba gegn Zalgiris Kaunas í …
Martin Hermannsson í leik með Alba gegn Zalgiris Kaunas í EuroLeague. Ljósmynd/EuroLeague

Keppnistímabilinu í EuroLeague, sterkustu körfuknattleiksdeild Evrópu, hefur verið hætt en tímabilið var formlega blásið af á fundi félaganna ellefu sem hafa A-keppnisleyfi í deildinni í dag.

Martin Hermannsson leikur með Alba Berlín frá Þýskalandi sem var í sextánda sæti af átján liðum í deildinnni þegar keppni var frestað í mars vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórn deildarinnar kemur fram að keppni í EuroLeague sé hætt, sömuleiðis í EuroCup, nokkurs konar B-deild EuroLeague, þar sem Unics Kazan, lið Hauks Helga Pálssonar, var á meðal þátttakenda, og í öðrum mótum tengdum EuroLeague.

Haukur Helgi Pálsson í leik með Unics Kazan í Evrópubikarnum.
Haukur Helgi Pálsson í leik með Unics Kazan í Evrópubikarnum. Ljósmynd/Eurocup

Ekkert lið verður krýndur meistari í EuroLeague eða EuroCup fyrir  tímabilið 2019-20. Sömu átján lið verða í deildinni næsta vetur og Alba Berlín hefur því tryggan keppnisrétt þar.

Unics Kazan var komið í átta liða úrslit Evrópubikarsins og fær fyrir vikið tryggt sæti í keppninni næsta vetur.

mbl.is