„Tek við af auðmýkt“

Darri Freyr Atlason í KR-heimilinu í dag.
Darri Freyr Atlason í KR-heimilinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Darri Freyr Atlason, nýráðinn þjálfari karlaliðs KR í körfuknattleik, var brosmildur þegar mbl.is tók hann tali í dag. 

„Ég tek við KR-liðinu af auðmýkt. Það var magnað að ganga inn í salinn í fyrsta skipti sem þjálfari KR eftir að hafa sett blek á blað. Ábyggilega verður það enn þá magnaðra þegar hægt verður að spila körfubolta. Í liðinu eru leikmenn sem ég ber mikla virðingu fyrir. Leikmenn sem ég ólst upp með og leikmenn sem ég fylgdist með sem áhorfandi. Sumir þeirra voru stjörnur þegar ég var að alast upp. Að fá tækifæri til að vinna með þeim að því að vinna áttunda titilinn í röð verður frábært,“ sagði Darri en KR vann sex ár í röð 2014 - 2019 en ekkert lið varð Íslandsmeistari 2020. 

Darri þekkir vel til hjá KR en hann var sjálfur leikmaður í gegnum yngri flokka og upp í meistaraflokk. Hann þjálfaði yngri flokka og meistaraflokk kvenna um tíma áður en hann fór yfir til Vals. 

„Ég veit að hér er sett krafa á titil og ekkert annað. Tölfræði síðasta áratugar segir okkur að það er líklegra að við vinnum titil heldur en ekki. Þetta er því spennandi áskorun. Þetta eru kannski aðstæður þar sem nánast eina leiðin er niður á við en ég er tilbúinn til að halda því áfram sem byggt hefur verið og vinna að því að gera þetta að enn þá sjálfbærara módeli.“

Eins og íþróttaunnendur þekkja eru reyndar kempur eins og Jón Arnór Stefánsson, Helgi Már Magnússon, Jakob Örn Sigurðaron og Sigurður Þorvaldsson komnir á virðulegan aldur fyrir íþróttamenn. Darri segist ekki hafa sett sig í samband við þá. Slíkt hafi ekki verið tímabært fyrr en hann sé orðinn starfsmaður KR. 

„Jón, Helgi og Kobbi liggja undir feldi enn þá. Ég hef ekki talað mikið við þá enda fannst mér eðliegra að vera búinn að taka við liðinu áður en ég geri það. Við munum byggja áfram á sterkum kjarna KR-inga sem jafnast á við leikmannakjarna í hvaða liði sem er í deildinni. Við sjáum til þess að við verðum með samkeppnishæft lið og gott betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert