Jón Axel fundar með liðum í NBA-deildinni

Jón Axel Guðmundsson gæti verið á leið í bandarísku NBA-deildina.
Jón Axel Guðmundsson gæti verið á leið í bandarísku NBA-deildina. AFP

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur að undanförnu fundað með fimm NBA-liðum sem hafa sýnt honum áhuga og mun ræða við fulltrúa frá fleiri liðum á næstunni.

„Ég hef talað við fimm NBA-lið og á næstu dögum er verið að koma á fundum með fleiri NBA-liðum. Ég er búinn að tala við Charlotte Hornets, Cleveland Cavaliers, Utah Jazz, Phoenix Suns og Milwaukee Bucks.

Ég á eftir að tala við Miami Heat, Sacramento Kings, Golden State Warriors og væntanlega fleiri lið. Ég reikna með því að funda með þessum liðum í næstu viku og í næsta mánuði,“ segir Jón Axel um gang mála hjá sér í Bandaríkjunum.

Eins og Morgunblaðið greindi frá fyrr í vetur gefur Jón Axel kost á sér í nýliðavali NBA en skólagöngu hans hjá Davidson er lokið. Jón metur stöðuna þannig að hann eigi mesta möguleika á að komast í NBA nú þegar hann er að koma beint úr háskólakörfuboltanum, NCAA.

„Mér finnst ég vera í góðri stöðu til að komast að hjá NBA-liði. Ég er því ekki viss um að ég myndi stökkva á tilboð frá liði í Evrópu áður en í ljós kemur hvort ég komist í NBA. Ég er að eltast við drauminn sem alltaf hefur verið að komast í NBA og spila í bestu deild í heimi. Ég tel að þetta sé mitt besta tækifæri núna.“

Óvissa um nýliðavalið

Ekki hefur verið leikið í NBA-deildinni síðan í mars vegna kórónuveirunnar. Enn er gælt við þá hugmynd að ljúka keppnistímabilinu en það er enn óljóst. Nýliðavalinu fyrir næsta tímabil hefur því verið frestað og Jón Axel bíður átekta.

„Ef NBA-deildin fer ekki af stað aftur þá er líklegt að nýliðavalið verði í júlí. Ef tímabilið verður klárað í NBA þá er nýliðavalið kannski ekki fyrr en í september. Þetta fer eftir því hvað gerist varðandi tímabilið 2019-2020.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert