Gríðarleg viðurkenning fyrir landsliðsmanninn

Jón Axel Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Sviss.
Jón Axel Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Sviss. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta, var í dag verðlaunaður sem íþróttamaður ársins hjá Davidson-háskólanum í Bandaríkjunum. 

Skólinn teflir fram liðum og einstaklingum í hinum ýmsu greinum undir nafninu Davidson Wildcats, en Jón Axel þótti skara fram úr í skólanum í karlaflokki. 

Jón er einn merkasti íþróttamaðurinn í sögu körfuboltaliðs skólans en hann var m.a. valinn leikmaður ársins í Atlantic 10 riðlinum á síðasta ári. Þá er hann eini leikmaðurinn í sögu skólans sem hefur skorað 1.000 stig, tekið 500 fráköst og gefið 500 stoðsendingar. Þá er hann í hópi tíu stigahæstu leikmanna í sögu skólans. 

Jón greindi frá því í samtali við Morgunblaðið á dögunum að hann freisti þess að komast að liði í NBA-deildinni vestanhafs. Hefur hann rætt við Charlotte Hornets, Cleveland Cavaliers, Utah Jazz, Phoenix Suns og Milwaukee Bucks og mun sömuleiðis ræða við Miami Heat, Sacramento Kings og Golden State Warriors á næstunni. 

mbl.is