Einn sá stærsti í Hauka

Ragnar Nathanaelsson er orðinn leikmaður Hauka.
Ragnar Nathanaelsson er orðinn leikmaður Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmiðherjinn Ragnar Nathanaelsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Hauka og leika með liðinu næstu tvö tímabil. Raggi Nat, eins og flestir þekkja hann, er búinn að vera viðloðinn íslenska karlalandsliðið í dágóðan tíma, en hann kemur til félagsins frá Val þar sem hann hefur verið undanfarin tvö ár. 

Ragnar, sem er 218 sentímetrar, er spenntur fyrir komandi tímum hjá Haukum, en liðið var í sjötta sæti þegar tímabilið var blásið af í vetur. 

„Ég er virkilega spenntur fyrir næsta tímabili hjá Haukum. Ég hef ég haft mikinn áhuga á að vera undir handleiðslu Israel Martins frá því hann byrjaði að þjálfa á Íslandi. Einnig er ég mjög spenntur að fá að vinna áfram með Sævaldi Bjarna,“ er haft eftir Ragnari í yfirlýsingu félagsins. 

„Ekki skemmir að ég þekki, að einhverju leiti, allan kjarnann. Ég hef verið í landsliðsverkefnum með þeim öllum, bæði unglinga- og A-landsliðs. Það er mikill metnaður hérna á Ásvöllum og ætlum við að gera tilkall í alla titla sem eru í boði. Ég get því ekki verið annað en sáttur með að hafa gengið til liðs við Hauka,“ bætti hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert