Michael Jordan hefur fengið nóg

Michael Jordan hefur tjáð sig um morðið á George Floyd.
Michael Jordan hefur tjáð sig um morðið á George Floyd. AFP

Michael Jordan, sexfaldur meistari í NBA-deildinni í körfuknattleik og af mörgum talinn besti körfuboltamaður sögunnar, sendi frá sér yfirlýsingu um helgina vegna andláts Bandaríkjamannsins George Floyd. Allt er á suðupunkti í Bandaríkjunum þessa dagana eftir að hvítur lögreglumaður drap Floyd með því að krjúpa á hálsi hans við handtöku en Floyd var dökkur á hörund.

Atvikið, sem átti sér stað í Minneapolis, náðist á myndband og hafa hörð og blóðug mótmæli átt sér stað í öllum ríkjum Bandaríkjanna undanfarna daga sem snúast fyrst og fremst um lögregluofbeldi í garð þeirra sem eru dökkir á hörund í landinu. „Ég er sorgmæddur, mér líður illa og ég er reiður,“ sagði Jordan í tilkynningu sem hann sendi frá sér í dag.

„Ég skil þessi viðbrögð fullkomlega og ég stend með öllum þeim sem hafa séð sér fært um að mæta út á götur til þess að mótmæla áralangri kúgun. Kynþáttafordómar og ofbeldi í garð fólks sem er ekki hvítt á hörund er rótgróið vandamál í Bandaríkjunum og við höfum einfaldlega fengið nóg.

Við þurfum að halda áfram að mótmæla en á friðsælan hátt. Við þurfum að setja pressa og þrýsting á stjórnmálamenn um að breytinga sé þörf. Við verðum að breyta úreltum lögum og það þurfa allir að leggjast á eitt til þess að finna lausn. Þetta er samfélagslegt vandamál og við verðum einfaldlega að tryggja réttæti fyrir alla,“ bætti Jordan við.

mbl.is