Martin fór á kostum

Martin Hermannsson var stigahæstur í liði Alba Berlín í kvöld.
Martin Hermannsson var stigahæstur í liði Alba Berlín í kvöld. Ljósmynd/Euroleague

Martin Hermannsson átti stórleik fyrir Alba Berlín þegar liðið fékk Göttingen í heimsókn í seinni leik liðanna í átta liða úrslitunum um þýska meistaratitilinn í körfuknattleik í kvöld. Leiknum lauk með þriggja stiga sigri Alba Berlín, 88:85, en Martin var stigahæstur í liði Alba Berlín með 19 stig og þá gaf landsliðsmaðurinn sjö stoðsendingar í leiknum.

Alba vann fyrri leikinn með 25 stiga mun og var því með þægilegt forskot fyrir leikinn í kvöld. Alba leiddi með sex stigum eftir fyrsta leikhluta, 22:16, en í hálfleik var staðan 52:31, Alba Berlín í vil, og þann mun tókst Göttingen ekki að vinna upp.

Martin var fjarri góðu gamni í fyrri leik liðanna vegna meiðsla en hann snéri aftur í dag með látum. Alba Berlín er komið áfram í undanúrslit þar sem liðið mætir Oldenburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert