Stefnt að Norðurlandamóti í Finnlandi í ágúst

U18 ára landslið stúlkna sem lék á síðasta Norðurlandamóti.
U18 ára landslið stúlkna sem lék á síðasta Norðurlandamóti. Ljósmynd/KKÍ

Norðurlandamót unglinga í körfuknattleik, fyrir U16 og U18 ára landslið drengja og stúlkna, verður haldið í Kisikallio í Finnlandi 4. til 7. ágúst en mótinu átti að fara um komandi mánaðamót og var frestað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Gangi þetta eftir verður þarna um að ræða fyrstu leiki íslenskra landsliða frá því allri keppni var frestað eða aflýst í marsmánuði.

Í tilkynningu frá Körfuknattleikssambandi Íslands segir að þetta sé háð þeim fyrirvara að mótið fari fram ef allt ástand vegna kórónuveirunnar verði áfram í lagi í þjóðfélaginu og ferðalög leyfð, bæði hér heima og í Finnlandi.

Svíar fá ekki að vera með vegna ferðatakmarkana á milli Svíþjóðar og Finnlands og Norðmenn ákváðu að taka ekki þátt. Ísland, Finnland, Danmörk og Eistland taka því þátt í mótinu og mætast innbyrðist ásamt því að leikið verður um endanleg sæti í lokin.

Engir áhorfendur verða leyfðir á mótinu og aðeins lágmarksfjöldi frá hverri þátttökuþjóð. Allir leikir verða sýndir beint á netinu. Íslenski hópurinn flýgur til Finnlands með Icelandair 3. ágúst og aftur heim 8. ágúst, að því er fram kemur í tilkynningunni.

mbl.is