Loks sigur hjá Tryggva

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. Ljósmynd/FIBA

Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Zaragoza unnu langþráðan sigur í úrslitakeppninni um spænska meistaratitilinn í körfuknattleik í dag, 85:76 gegn Gran Canaria.

Þetta var fyrsti sigur liðsins síðan deildin fór af stað á ný eftir hlé vegna kórónuveirunnar en þeir voru búnir að tapa þremur í röð.

Tryggvi átti fínan leik, spilaði 14 mínútur, skoraði átta stig, tók fjögur fráköst og gaf eina stoðsendingu. Lið Zaragoza er eitt tólf liða sem berjast um spænska meistaratitilinn en það situr á botninum í B-riðlinum, í 6. sæti með aðeins einn sigur eftir fjóra leiki og á ekki möguleika á að komast áfram í undanúrslitin þrátt fyrir sigurinn í dag. Ein umferð er eftir í riðlakeppninni en Zaragoza mætir Real Madrid á föstudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert