Martin kominn í úrslitaeinvígið

Martin Hermannsson er kominn í tvo úrslitaleiki.
Martin Hermannsson er kominn í tvo úrslitaleiki. Ljósmynd/Alba

Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlín voru ekki í neinum vandræðum með að tryggja sér sigur í undanúrslitaeinvíginu við Oldenburg í keppninni um þýska meistaratitilinn í körfuknattleik í München í kvöld.

Alba vann seinni leikinn í kvöld, 81:59, og fylgdu eftir öðrum stórsigri í fyrri viðureigninni, 92:63. Það verða því Alba Berlín og Ludwigsburg sem leika úrslitaleikina tvo um meistaratitilinn í München á föstudagskvöldið og á sunnudaginn.

Martin lék aðeins í tæpar 14 mínútur í kvöld en hann skoraði 5 stig, átti sex stoðsendingar og  tók tvö fráköst.

mbl.is