Valur fær miðherja úr Breiðholtinu

Nína Jenný Kristjánsdóttir og Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfari Vals.
Nína Jenný Kristjánsdóttir og Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfari Vals. Ljósmynd/Valur

Körfuboltalið Vals í kvennaflokki hefur fengið liðsauka úr Breiðholtinu en Nína Jenný Kristjánsdóttir er komin til félagsins frá ÍR og hefur samið við Hlíðarendafélagið til næstu tveggja ára.

Nína Jenný er 23 ára miðherji og uppalin í FSu á Selfossi en lék með Val 2015-16 áður en hún gekk til liðs við ÍR. Þar skoraði hún í vetur 13,4 stig og tók 7,1 fráköst að meðaltali í leik með liðinu í 1. deildinni.

Í fréttatilkynningu sem körfuknattleiksdeild Vals sendi frá sér segir Ólafur Jónas Sigurðsson nýráðinn þjálfari Vals um Nínu, en hann þjálfaði hana hjá ÍR:

„Nína hefur verið í lykilhlutverki í ÍR undanfarin þrjú ár. Hún leggur hart að sér og er dugleg að æfa sem hefur skilað sér inni á vellinum. Á síðasta tímabili sýndi hún mikla leiðtogahæfileika og fór fyrir liðinu bæði varnar og sóknarlega. Hún er óeigingjörn og leggur sig fram fyrir liðið. Hún kemur til með að styrkja hópinn mikið og auka við breiddina og það verður gaman að halda áfram að fylgjast með þróun hennar sem leikmanns nú þegar hún er komin aftur í úrvalsdeildina."

Í tilkynningunni segir Nína um Val: 

„Ég er spennt fyrir komandi tímabili með Val. Valsliðið er skipað mjög sterkum leikmönnum og verður gaman að vera partur af liðinu á ný. Auk þess verður gaman að halda áfram að spila undir stjórn Óla. Ég ætla að gera allt sem ég get til að hjálpa liðinu og hlakka mikið til að komast aftur af stað eftir skrítinn enda á síðasta tímabili." 

mbl.is